Unnar Hermannsson hefur hafið störf hjá ÍV Mörkuðum. Unnar er sérfræðingur í markaðsviðskiptum og starfaði áður sem verðbréfamiðlari hjá markaðsviðskiptum Arion banka frá 2006-2018, þar áður við fyrirtækjaráðgjöf hjá KPMG 2001-2006 og árin 2018-2020 sat hann í stjórn Lífsverks lífeyrissjóðs.

Undanfarin misseri hefur Unnar starfað sjálfstætt við eigin fjárfestingar og ráðgjöf, einkum tengt flugrekstri. Unnar er með MSc. í alþjóðaviðskiptum frá London School of Economics og með próf í verðbréfamiðlun.

„Unnar er með mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði, þekkingu á verðbréfamörkuðum og tengingar sem eiga eftir að nýtast viðskiptavinum okkar sérstaklega vel á næstu árum. Hann er frábær viðbót við teymið og við búumst við miklu af honum á næstunni,“ segir Hjörvari Maronsson, forstöðumaður ÍV Markaða í tilkynningu félagsins.

ÍV Markaðir sinna miðlun verðbréfa, sölu sjóða í rekstri ÍV sjóða hf. og aðstoða viðskiptavini við fjármögnun með skulda- eða hlutabréfaútgáfu.