Unnið hefur verið að endurfjármögnun Ferðaskrifstofu Íslands að undanförnu og á Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri ferðaskrifstofunnar, von á því að tilkynnt verði um nýjan fjársterkan aðili að félaginu eftir helgi.

Hann segir að ferðaskrifstofan hafi, eins og önnur fyrirtæki, ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem við blasi íslensku atvinnulífi.

„Ég ætla ekki að leyna því að við lentum í hremmingum vegna krónunnar á síðasta ári," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið, en gengi krónunnar féll um 45% á liðnu ári.

„Félagið stóð hins vegar vel í upphafi síðasta árs og reksturinn var tryggur og góður," bætir hann við.

Flugi frá Íslandi til Tenerife sem fyrirhugað var snemma í morgun hefur verið seinkað þar til nú síðdegis.

Þorsteinn segir aðspurður að seinkunin hafi óbeint tengst viðræðum um endurfjármögnun félagsins, en vill ekki tilgreina nánar hvernig.

Hann fullyrðir að ekki verði fleiri raskanir á flugi eða ferðum á vegum félagsins vegna þessa.

Ferðaskrifstofa Íslands á og rekur Sumarferðir, Plúsferðir og Úrval-Útsýn.