Íslenskir aðalverktakar hf. (ÍAV) hafa átt í viðræðum við Kaupþing um endurskipulagningu á efnahag ÍAV.  Í þeim viðræðum hafa ýmsar leiðir verið ræddar en niðurstaða liggur ekki fyrir segir í tilkynningu félagsins.

Þar segir að stjórnendur ÍAV hafi lagt á það áherslu í viðræðum við Kaupþing að styrkja starfsemi félagsins til framtíðar og varðveita þau störf sem félagið skapar.

Verktakastarfsemi hefur orðið hvað harðast úti í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum og hefur ÍAV ekki verið undanskilið í þeim efnum.  Hrun á fasteignamarkaði hefur valdið félaginu gríðarlegu tjóni.  Þá hafa tafir og tímabundnar stöðvanir framkvæmda m.a. vegna Tónlistarhússins valdið félaginu enn frekara tjóni segir í tilkynningu.

Mikil verðbólga, hátt vaxtastig og gengisfall íslensku krónunnar hefur auk þess verið félaginu kostnaðarsamt.