Viðræður hafa verið í gangi við banka um endurskipulagningu skulda Nýherja að því er kom fram í ræðu stjórnarformanns félagsins á aðalfundi þess um helgina.

Benedikt Jóhannsson, stjórnarformaður félagsins, sagði að ljóst hefði orðið að slík endurskipulagning yrði nauðsynleg strax og kaupum á TM Software var lokið í lok mars. "Bankar töldu að betra væri að vinna þau mál með haustinu þegar hægðist um. Svo fór sem fór. Þetta kennir okkur þá lexíu að ekki er hægt að bíða með mál af þessu tagi í svo stórum viðskiptum. Viðræður við stærstu lánardrottna, Kaupþing og Glitni hafa staðið yfir um hríð og þess er vænst að þeim ljúki um næstu mánaðamót með jákvæðri niðurstöðu. Miklar mannabreytingar í bönkunum og annir þeirra við önnur verkefni hafa tafið málið," sagði Benedikt í ræðu sinni.