Vatnsútflutningsfyrirtækið Icelandia PLC, sem er breskt almenningshlutafélag en að hluta í eigu Íslendinga, hefur tryggt sér vatnsréttindi í Snæfellsbæ til 95 ára. Verið er að vinna að fjármögnun þriggja milljarða átöppunarverksmiðju, sem ætlunin er að reisa á Rifi.

"Við erum búnir að vinna að þessu verkefni í liðlega fimmtán mánuði og erum að vonast til að geta byrjað að reisa verksmiðjuna fyrir áramót. Framleiðsla ætti þá að geta hafist í lok árs 2007", segir Birgir Viðar Halldórsson, sem er einn af stofnendum fyrirtækisins.

Byggja á 15.000 fermetra átöppunarverksmiðju á 63.000 fermetra lóð á Rifi. Áætlað er að vinnslulína verskmiðjunnar geti afkastað allt að 600 flöskum á mínútu. Fyrst í stað er stefnt á Bandaríkjamarkað með sölu á dýru hágæðavatni undir vörumerkinu Glacier Isle. Búist er við að ráða þurfi 40 starfsmenn í upphafi, en þeir gætu orðið allt að 120 á þriðja rekstrarári.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.