Unnið er að því í samvinnu Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands að kortleggja vindorku Íslands. Á Veðurstofunni eru þegar til gögn sem verða notuð við verkefnið. Verkefnið hófst með fé úr Orkusjóði, en það var notað m.a. til þess að kaupa þau forrit sem notuð eru ásamt því að ljúka við að kortleggja fyrsta fjórðunginn af landinu.

Verkefninu lýkur á árinu 2007 með vindatlas af öllu landinu segir í frétt á heimasíðu Orkustofnunar. Gögnin verða birt á Gagnavefsjá Orkustofnunar og verða öllum aðgengileg þar. Orkustofnun mun sjá um þá vinnu sem vinna þarf á Orkustofnun við að koma gögnum inn á Gagnavefsjána. Vindatlasinn verður eign Orkustofnunar en gögn sem Veðurstofan leggur til hennar eign. Forrit sem keypt eru til verkefnisins verða í vörslu Veðurstofunnar og skal hún ekki taka sérstakt gjald fyrir notkun þeirra.