Þau kjör sem boðin voru Lárusi Welding þegar hann var ráðinn forstjóri Glitnis munu hafa verið í samræmi við það sem tíðkaðist við gerð sambærilegra samninga hjá fjármálafyrirtækjum á þessum tíma.

Þetta kemur fram í svari Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis til Vilhjálms Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Félags fjárfesta og hluthafa í Glitni.

„Þegar Bjarni Ármannsson lét af störfum var ljóst að það yrði vandasamt að fylla hans skarð. Þáverandi stjórn bankans hafði það hlutverk að finna hæfan arftaka og Lárus Welding varð fyrir valinu, sem þá starfaði sem framkvæmdastjóri Landsbankans í London. Lárus hafði á þeim tíma áunnið sér tiltekin starfskjör og réttindi sem hann gaf frá sér þegar hann skipti um starfsvettvang,“ segir Þorsteinn í svari sínu.

Á aðalfundi Glitnis þann 20. febrúar síðastliðinn spurði Vilhjálmur um hvaða ástæður hefðu legið til þess að gerður var kaupréttarsamningur við forstjóra bankans fyrir 150 milljónum hluta á genginu 26,6, samtals að fjárhæð 3.990.000.000, og hver er áætlaður kostnaður Glitnis banka af þessum samningi?

Vilhjálmur lagði fram spurningar í sex liðum sem allar sneru að kaupréttarsamningum starfsmanna.

Slíkir samningar ekki gerðir aftur

Í svari Þorsteins Más kemur fram að slíkir samningar verði ekki gerðir á meðan hann er stjórnarformaður bankans. Þá kemur einnig fram að unnið er að því um þessar mundir, í samstarfi við lykilstjórnendur, að breyta núverandi fyrirkomulagi og fella niður þá kauprétti sem nú eru í gildi.

Tilgangurinn með breytingunum verður fyrst og fremst að koma á nýju fyrirkomulagi þar sem hagur hluthafa og starfsmanna fer betur saman en samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er við lýði.