Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í ræðu á aðalfundi Samorku í dag að í ráðuneytinu væri unnið að drögum að frumvarpi um hitaveitur. Stefnt væri að því að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi.

"Tímafrekast hefur reynst að gera nýja tillögu að fyrirkomulagi gjaldskráreftirlits er taki mið af ólíkum þörfum," sagði hann á aðalfundinum og bætti við. "Ég get sagt ykkur þau tíðindi að verið er að leggja lokahönd á lagatexta frumvarpsins. Tillagan verður send Samorku til umsagnar í næstu viku en stefnt er að því að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi."

Ráðherrann vék einnig að orkufrumvarpinu sem nú er til meðferðar í þingflokki Sjálfstæðisflokks. Samfylkingin hefur hins vegar samþykkt frumvarpið fyrir sitt leyti. Þá hefur það verið afgreitt frá ríkisstjórn. Í því er meðal annars lagt til að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar.

Þrír meirihlutar í Reykjavík hafi verið sammála efni frumvarpsins

"Hvað eignarhaldið varðar, þá hef ég ekki orðið var við beina andstöðu sveitarstjórna, eða orkufyrirtækja, gegn markmiðinu sem ég lýsti," sagði Össur og hélt áfram. "Það eru ekki allir ánægðir með þetta, en ef ég til dæmis tek mitt sveitarfélag, Reykjavík, þá fæ ég ekki betur séð en að þeir þrír meirihlutar sem hafa setið í Ráðhúsinu á þessu kjörtímabili, hafi allir verið mjög eindregið á þeirri skoðun, að auðlindirnar eigi að vera í eigu sveitarfélagsins til frambúðar. Svipuð viðhorf, hugsanlega ekki jafn afdráttarlaus, hafa komið fram hjá sveitarfélögum suður með sjó, sem hafa yfir að ráða miklum orkulindum."

Össur sagði enn fremur að forsætisráðherra, Geir H. Haarde hefði tjáð sig með eindregnum hætti um þetta mál bæði á Alþingi, og í fjölmiðlum. Hann hefði til dæmis kveðið ákaflega skýrt að orði í viðtali í Viðskiptablaðinu 12. október sl. Þar hefði Geir sagt:  "Við viljum ekki að auðlindirnar sjálfar verði einkavæddar."

Össur sagði að svipuð viðhorf hefðu komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi.