Þrálátur orðrómur hefur verið um það á fjármálamörkuðum í Svíþjóð og á Íslandi um að verið sé að vinna að sameiningu danska lággjaldaflugfélagsins Sterling Airlines, sænska félaginu FlyMe og lággjaldaarmi Finnair, FlyNordic.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun FL Group, sem keypti Sterling í fyrra af eignarhaldsfélaginu Fons fyrir 15 milljarða króna, verða stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi og losa nálægt 10 milljörðum króna ef viðskiptin ganga eftir.

Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe, sagði mörg lággjaldafyrirtæki eiga í samrunaviðræðum um þessar mundir og sagði sameiningu Sterling, FlyMe og FlyNordic vera einn möguleika í stöðunni. Hann vildi þó ekki staðfesta hvort viðræður félaganna þriggja væru langt komnar, en Olegaard sagði í júní að FlyMe hefði 4-6 lággjaldaflugfélög í sigtinu.

Hann sagði ennfremur að FlyMe, sem er að mestu leyti í eigu Pálma Haraldssonar og eignarhaldsfélagins Fons, hefði frestað lokum áreiðanleikakönnunar á litháíska flugfélaginu Lithuanian Airlines til 30. september. Þetta er í annað sinn sem áreiðanleikakönnunin er framlengd, en fyrst var áætlað að ljúka henni 30. mars og svo síðar 30. júní. Hann sagðist ekki geta tjáð sig nánar um ástæður framlengingarinnar. FlyMe keypt í byrjun árs 33% hlut í Lithuanian Airlines í gegnum Fons og á kauprétt af öllu hlutafé fyrirtækisins.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja stöðu FL Group til að knýja fram sameiningu Sterling, FlyMe og FlyNordic sterka. Sterling er að fullu í eigu FL Group en eins og áður segir er Fons stærsti hluthafinn í FlyMe með rúmlega 20% eignarhlut. FL Group á einnig um 10% hlut í Finnair, móðurfélagi FlyNordic, og keypti nýlega 24,4% hlut í Straumi-Burðarási, sem einnig er stór hluthafi í Finnair.

FlyMe hefur skrifað undir ráðgjafarsamning við Glitni um að veita fyrirtækinu ráðgjöf við hugsanlegar yfirtökur. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja það ekki ólíklegt að bankinn taki einnig þátt í að fjármagna hugsanlegan samruna félaganna þriggja, sérstaklega þar sem FL Group er stærsti einstaki hluthafinn í Glitni.