Á síðasta aðalfundi Landssambandsins veiðifélaga var samþykkt tillaga um að gerð yrði ítarleg skýrsla um þýðingu veiðihlunninda fyrir þjóðarbúið. Þetta verkefni er nú komið vel af stað að sögn Óðins Sigþórssonar formanns Landssambandsins. Samið hefur verið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að kanna efnahagslega þýðingu veiðihlunninda. Í því skyni hafa verið sendir spurningalistar til veiðifélaga.

Að sögn Óðins er ánægjulegt hversu góð viðbrögð forystumanna veiðifélaga hafa verið við þessu erindi. Veiðimálastofnun mun leggja til efni í skýrsluna og fjalla um auðlindina sjálfa og stöðu hennar með tilliti til nýtingar í nútíð og framtíð. "Við munum þegar þessu mikla verki lýkur hafa í fyrsta sinn á borðinu alhliða skýrslu þar sem mikilvægi þessar atvinnugreinar fyrir þjóðfélagið eru gerð skil með vönduðum hætti. Við höfum fundið fyrir því, að þegar tekist er á um okkar hagsmunamál í þjóðfélaginu, þá vantar okkur þessar upplýsingar tilfinnanlega," sagði Óðinn í skýrslu sinni á aðalfundi Landssambandsins um síðustu helgi.

Ætla má ætla að heildarkostnaður við skýrslu þessa geti losað 4 milljónir króna. Verkefnið hefur verið fjármagnað að fullu með styrkjum frá Fiskræktarsjóði, Framleiðnisjóði og einnig fékkst 1200 þúsund krónu styrkur frá landbúnaðarráðuneyti.