Meirihluti eigenda Lyfjaþróunar hf. hefur ákveðið að stefna að sölu á rekstri og tækni fyrirtækisins og draga sig í kjölfarið út úr félaginu segir í tilkynningu.  Lyfjaþróun hf. er 16 ára gamalt fyrirtæki, með aðsetur í Reykjavík, sem þróað hefur tækni til inntöku lyfja með nefúða.

Félagið hefur verið skilgreint sem sprotafyrirtæki á lyfja- og líftæknimarkaði, en þar ríkir hörð samkeppni og leiðin löng frá rannsóknum til söluvöru. Margar áhugaverðar rannsóknir eru í gangi hjá Lyfjaþróun hf. og meðal annars er unnið eftir samningum við tvö stór fyrirtæki í lyfjageiranum sem gefið hafa félaginu tekjur. Aukið fjármagn þarf hinsvegar til áframhaldandi rannsókna og því hefur verið tekin sú ákvörðun að leita að nýjum eigendum eða rekstraraðilum. Núverandi meirihlutaeigendur eru að mestum hluta í óskyldum fjárfestingum og rekstri og því hefur þessi leið verið ákveðin af hluthöfum.

Starfsmenn félagsins eru 13 talsins, nær allir sérfræðingar á sviði rannsókna í lyf- og líftækni.
Í frétt félagsins kemur fram að stjórn félagsins taldi því miður nauðsynlegt að segja upp öllum starfssamningum frá og með næstu mánaðamótum. Uppsagnirnar taka gildi eftir þrjá mánuði en stjórn félagsins og eigendur vona að ekki þurfi til þess að koma og munu vinna áfram að sölu félagsins segir í tilkynningu.