Unnið er að uppskiptingu á rekstri Enex sem felst meðal annars í sölu á eignum félagsins. Enex er, sem kunnugt er, í helmingseigu REY og Geysir Green Energy (GGE). Félagið sagði nýlega upp helmingi starfsmanna sinna og vinnur nú að sölu verkefna, bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Hugmyndin að baki Enex var að finna verkefni erlendis og fjárfesta í þeim. Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra GGE, gekk vel að finna verkefnin en síður að fá fjárfesta með.

,,Þess vegna þarf að draga saman seglin og finna hvað hægt er að vinna áfram með og þetta verður að gera. Við erum hættir að fara um heiminn og leita fleiri verkefna, það er ekki ástæða til. Töluverður hluti af starfinu fólst í því að meta og finna verkefni, hvort sem þau voru áhugaverð eða ekki. Það starf er lagt af,“ sagði Ásgeir. Spurður að því hvort túlka mætti þetta sem uppskiptingu á Enex sagði hann svo ekki vera en það gæti leitt til þess.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .