Að sögn Sveins Andra Sveinssonar, skiptastjóra Malarvinnslunnar hf. á Egilsstöðum, er framundan að kalla eftir kröfum og sjá hvaða hluta starfseminnar er hægt að koma í rekstur aftur sem fyrst.

Byggingadeild fyrirtækisins og einingadeild höfðu verið seld áður en til gjaldþrots kom með fyrirvara um samþykki skiptastjóra. Sagðist Sveinn Andri gera ráð fyrir að blessa það. Heildarskuldir Malarvinnslunnar nema um 2,5 milljörðum króna.

Að sögn Sveins Andra er verið að skoða hvort hægt er að selja starfsemi klæðningadeildar og svo er verið að reyna að kanna hvort hægt sé að koma steypustöðinni í gang. Fasteignir félagsins verða væntanlega yfirteknar af Glitni sem er stærsti kröfuhafinn. Viðræður eru í gangi við Glitni um það um leið og unnið er að sölu annara eigna félagsins.  Einnig eru Glitnir Fjármögnun og Lýsing með talsvert af fjármögnunarsamningum hjá félaginu.

Áður en til gjaldþrots kom hafði starfsemi félagsins verið færð verulega niður og því var engin mannskapur að störfum nema skrifstofufólk. Fjármálastjóri fyrirtækisins vinnur áfram fyrir skiptastjóra með bókara í hálfu starfi. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi frá fleirum

Sveinn Andri sagðist vonast til þess að sem flestir starfsmenn fyrirtækisins fengju vinnu áfram í nýrri starfsemi. Hjá fyrirtækinu hefðu unnið 110 manns þegar mest var en 30 hafði verið sagt upp auk þess sem 10 starfsmenn höfðu hætt þegar kom til gjaldþrots í upphafi vikunnar. Malarvinnslan er að fullu í eigu Kaupfélags Héraðsbúa svf. en félagið keypti allt hlutafé í félaginu í september í fyrra.