Unnið er að því að selja eignir bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers, sem varð gjaldþrota um miðjan september s.l.) en Reuters fréttastofan greinir frá því í dag að tiljónarmenn bankans hafi trú á því að hægt verði að koma stórum hlutum þrotabúsins í verð.

Fjárfestingabankinn Lazard hefur nú milligöngu um sölu á tveimur bönkum sem voru í eigu Lehman Brothers, FSB og Woodlands Commercial Bank.

Áður en bankarnir verða seldir þarf sérstakur gjaldþrotadómsstóll að samþykkja söluna.

„Það er sjálfsagt að koma verðmiklum eignum í sólu þannig að hægt verði að viðhalda rekstri og bjarga þeim verðmætum sem bjargað verður,“ hefur Reuters eftir Kimberly Macleod, talskonu Lehman Brothers. Hún vildi þú ekki staðfesta að fyrrnefndir bankar væru í sölumeðferð.

„Það er ljóst að það verður ekkert selt nema það fáist sanngjarnt verð fyrir einingarnar,“ sagði Macleod.

Í febrúar gaf gjaldþrotadómsstóll tilsjónarmönnum bankans leyfi til að setja fjármagn inn í bankana tvo til að viðhalda rekstri þeirra í þeirri von að þeir yrðu seldir von bráðar.

FSB var hringamiðja fasteignalána Lehman Brothers samstæðunnar auk þess sem bankinn sá að miklu leyti um að kaupa og selja fyrirtæki. Eigið fé bankans var um 467 milljónir við árslok 2008 en eignir bankans voru þó metnar á um 6,5 milljarð dala.

Woodlands sérhæfði sig í fyrirtækjaþjónustu og þá sérstaklega land- og eignakaupum og sölum fyrir fyrirtæki. Þá útvegaði bankinn fyrirtækjum lausafé til skamms tíma, sérhæfði sig í skiptasamningum og fleira. Woodland er ekki með viðskiptabankaleyfi en við árslok 2008 voru engar innistæður í bankanum. Eignir bankans við árslok 2008 námu þó um 5,4 milljörðum dala og eigið fé var um 432 milljónir dala.