Í utanríkisráðuneytinu er nú unnið að stofnun sérstaks viðskiptaþróunarsjóðs, að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, og eiga fyrirtæki að geta sótt um fjárframlög úr honum til að fjármagna "undirbúning viðskiptatengdra verkefna í þróunarríkjum sem sannanlega geta stuðlað að bættum lífskjörum í viðkomandi landi." Þetta kom fram í ræðu ráðherra í umræðum um utanríkismál á Alþingi fyrir helgi. Hún sagði jafnframt að í viðskiptalífinu hefði orðið vart vaxandi áhuga á þróunarstarfi.

Ráðherrann sagði, er hún fjallaði um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, að ljóst væri að sérþekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa gæti nýst afar vel fátækum þjóðum, svo sem í Afríku. Þær réðu margar hverjar yfir ríkulegum náttúruauðlindum en hefðu ekki þekkingu til að nýta þær í þágu almennings. "Sömu sögu er að segja af smáum eyþróunarríkjum en þar hefur verið kallað sérstaklega eftir samvinnu, þátttöku og framlagi Íslands," sagði Ingibjörg Sólrún og hélt áfram: "Því er nú verið að skoða sérstaklega að setja af stað þróunarverkefni í samvinnu við eyjar í Karíba- og Kyrrahafi sem hafi það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun einkum á sviði fiskveiða og sjávarútvegs og í nýtingu jarðvarma og annarra endurnýjanlegra orkugjafa."

Nánar er fjallað um ræðu Ingibjargar Sólveigar í helgarblaði Viðskiptablaðsins og lesa má ræðu hennar í heild sinni á http://www.althingi.is/raeda/135/rad20071108T103150.html