Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins (SA) og Kauphöll Íslands hafa hafið vinnu við gerð tillagna um stjórnarhætti hinna nýju ríkisbanka.

Þessir sömu aðilar áttu að eftir því sem fram kemur á vef SA, frumkvæði að því að setja fram leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja fyrir röskum fimm árum síðan.

Þetta kemur fram á vef SA.

„Með skýrum starfsreglum um stjórnarhætti banka er von mín að starfsemi stjórna bankanna verði gegnsærri og reynt að koma í veg fyrir misnotkun valds," segir Þór Sigfússon, formaður SA á vef samtakanna.

„Við eigum að horfast strax í augu við þá staðreynd að töluverð hætta verður á að smám saman fari pólitísk afskipti að ráða för í útlánum ríkisbanka. Það mundi hafa mjög slæm áhrif á íslenskt viðskiptalíf, auka mismunun og veikja þá einkastarfsemi í fjármálaheiminum sem enn er til staðar. Við eigum að bregðast strax við og reyna að fyrirbyggja eins og kostur er.

Þór segir á vef SA að nú taki ríkisbankar ákvarðanir um hvaða fyrirtæki fái að lifa og hver ekki.

„Það er mikil ábyrgð og fara verður varlega með þetta vald. Það yrði gífurlegt áfall fyrir íslenskt atvinnulíf ef Ísland mundi stefna að nýju inn í ástand þar sem flokksskírteinin ráða meiru en góðar viðskiptahugmyndir," segir Þór á vef SA.

Formaður vinnuhóps um stjórnarhætti banka og fjármálafyrirtækja er Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs en stefnt er að víðtæku samráði við ýmsa hagsmunaaðila í þeirri vinnu sem framundan er. Meðal annarra hefur verið rætt við ASÍ, fulltrúa stjórnmálaflokka og fleiri.

„Stefnt er að því að drög að tillögum um stjórnarhætti fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins verði kynnt á næstu vikum,“ segir á vef SA.