Að sögn Árna Tómassonar, formanns Skilanefndar Glitnis, er unnið að undirbúningi að sölumeðferð Sjóvár en félagið er komið í eigu skilanefndarinnar eftir gjaldþrot Milestone.

Þegar skilanefndin tók yfir starfsemi Sjóvá var rætt um að færa starfsemi Avants og Aska Capitals undir félagið. Eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag er alsendis óvíst að af því verði. Árni vildi ekki segja til um það og sagði að engar ákvarðanir hafi verið teknar um það ennþá. ,,Það er verið að skoða plúsa og mínusa sem tengjast ýmsum liðum og þeirri vinnu er ekki lokið. Það er verið að meta eignir og það er meiri vinna en við reiknuðum með í upphafi. Þangað til kominn er lokahnikkur á það er ekki hægt að segja til um framhaldið.”

- Er verið að verðmeta Sjóva?

,,Það er hugsanlegt að setja einhverjar eignir inn eða taka einhvarjar eignir út. Þá þarf að leggja mat á það og það er það sem verið er að gera. Þetta eru stór eignasöfn sem er verið að tala um. Þetta væri auðveldara ef þetta væri ein eða tvær eignir en þarna er um að ræða eignasöfn. Það skýrir tímann sem þetta tekur.”

- Er félagið í sölumeðferð?

,,Nei, það er ekki komið í sölumeðferð en við erum að undirbúa það. Við þurfum að vita betur hvar við stöndum áður en ákvörðun um það er tekin.”