„Það er ekki útséð með það ennþá. Það var ekki talin ástæða til þess eftir uppgjörið fyrir árið 2008 og við skulum sjá hvernig uppgjör síðasta árs lítur út,“ segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, aðspurður hvort ríkið þurfi að leggja sjóðnum til aukið eigið fé vegna bágrar fjárhagsstöðu.

Þegar síðasta ársuppgjör Íbúðalánasjóðs var birt í mars 2009 var eiginfjárhlutfall sjóðsins komið niður í 4,6% og 4,3% um mitt ár. Ef hlutfallið fer niður fyrir 4% þarf stjórn sjóðsins að skila inn sérstakri greinargerð til ráðherra þar sem lagðar eru til aðgerðir til að bæta stöðuna samkvæmt reglugerð. Miðað er við að hlutfallið fari ekki niður fyrir 5% yfir lengri tíma.

Eiginfjárhlutfallið hrapaði þegar afskrifa þurfti 7,8 milljarða króna í kjölfar falls bankanna. Í síðasta ársuppgjöri voru ýmis mál ófrágengin og talið að afskriftir yrðu meiri.

„Ég geri ráð fyrir að það gæti enn þurft að koma til einhverjar afskriftir og uppgjörið fyrir síðasta ár verði erfitt,“ viðurkennir Guðmundur. Hann segist hafa gert félagsmálaráðherra, sem fer með málefni Íbúðalánasjóðs, grein fyrir stöðunni. Það er í hans verkahring að ákveða hvort ríkið leggi Íbúðalánasjóði til aukið eigið fé eða færi jafnvel kröfur um eiginfjárhlutfall niður með reglugerðarbreytingu.

Nýtur ríkisábyrgðar

„Við erum að reyna að bregðast við sem kostur er og styrkja stöðu sjóðsins,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra. Hann bendir í því samhengi á ákvörðun Íbúðalánasjóðs í síðustu viku að hækka vaxtaálag á lántakendur, meðal annars til að mæta aukinni hættu á útlánatapi.

„Við viljum sjá endanlegt uppgjör áður en við svörum því hvernig á málum verður haldið,“ segir Árni Páll aðspurður hvort til standi að leggja Íbúðalánasjóði til meira eigið fé. „Við megum ekki heldur gleyma því að þessi mörk um 4% eiginfjárhlutfall, sem voru sett í reglugerð á sínum tíma, voru fyrst og fremst hugsuð til að hafa borð fyrir báru og eru jafnvel í hærra lagi. Sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar sem er ígildi víkjandi láns í ljósi þess að eigandinn, ríkissjóður, ber fulla ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Það er því engin ástæða til að fara á límingunum þótt eitthvað höggvi í eiginfjárhlutfallið.“