Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, kveðst leggja mikla áherslu á að úttekt á peningamálastefnunni fari fram sem fyrst.

Hún segir aðspurð að þegar sé verið að vinna að því að fá færa einstaklinga til að vinna að þeirri úttekt.

„Þetta er stefna sem hefur verið í gangi síðan 2001. Það verður að gera úttekt á henni til að menn átti sig á því hvort hún er farsæl til lengri tíma litið. Það hafa verið settar fram skoðanir, sem hafa verið studdar gildum rökum, um að svo sé ekki. Það verður því að fara yfir þetta,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Þorgerður Katrín er starfandi forsætisráðherra fram á sunnudag er Geir H. Haarde kemur heim frá New York.

Geir nefndi þessa endurskoðun peningamála í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans í lok mars sl. Þar sagði hann að senn yrði tímabært að gera fræðilega úttekt á peningamálastefnunni í góðu samstarfi við Seðlabankann.

„Til slíks verks þarf, þegar þar að kemur, að fá hæfustu sérfræðinga, erlenda og innlenda, líkt og gert hefur verið annars staðar.“