Verið er að vinna að tillögum um aðgerðir til viðnáms í gjaldeyrismálum og verða þær tilbúnar í þessum mánuði. Þetta kom fram í svari Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Benedikt sagðist styðja áform um fullkomið afnám hafta og að hann vildi að það gerðist sem allra fyrst. Það mætti þó ekki verða með þeim hætti að það skapaði óróa á markaði eða efnahagslegan óstöðugleika. Fullkomið afnám hafta gæti verið mikilvægur áfangi í því að ná jafnvægi í gjaldeyrismálum og vísaði þar til flökts á gengi krónunnar undanfarnar vikur.

Benedikt vék einnig í svari sínu að fundi sem fulltrúar stjórnvalda áttu með kröfuhöfum föllnu bankanna í síðustu viku. Sagði hann að á þeim fundi hafi ekki verið gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en að fulltrúar vogunarsjóðanna hafi þar útskýrt sitt mál.