Það var löngum haft á orði í tölvugeiranum, að enginn yrði rekinn fyrir að kaupa inn frá tölvurisanum IBM, svo traust þótti fyrirtækið og framleiðsla þess, þó verðið væri stundum í hærri kantinum.

Þeir dagar kunna að vera liðnir, því bandaríska umhverfisstofan EPA (Environmental Protection Agency) hefur sett IBM á bannlista hvað innkaup bandarískra alríkisstofnana áhrærir.

Bannið stafar þó ekki af því að umhverfisstofan telji IBM meiri sóða í umgengni við náttúruna en aðra tölvuframleiðendur, heldur vegna rannsóknar á því hvort fulltrúar fyrirtækisins hafi átt óeðlileg samskipti við innkaupastjóra stofnunarinnar fyrir tveimur árum.

Samkvæmt ákvörðunni mun IBM ekki getað boðið í útboð á vegum alríkisins þar til annað verður ákveðið. Þetta var kynnt með lágstemmdum hætti á opinberum vef síðastliðinn fimmtudag, en IBM hyggst leita réttar síns og telur þessar aðgerðir úr öllu samhengi við ætlað brot tiltekinna starfsmanna þess.

Fyrirtækið hafi um áratugabil átt í verulegum viðskiptum við hið opinbera, án þess að nokkurn skugga hafi borið á. IBM hefur árlega átt viðskipti við bandaríska alríkið, sem nemur liðlega 110 milljörðum íslenskra króna.