Liðið Sad Engineers Studios varð hlutskarpast í samkeppni Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um svokallað Íslendingaapp sem lauk í dag. Liðið skipa þeir Arnar Freyr Aðalsteinsson, Hákon Þrastar Björnsson og Alexeander Annas Helgason, nemendur í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þeir hlutu í sigurlaun eina milljón króna og verður lausn þeirra nýtt sem viðbót við Íslendingabók. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum keppninnar. Hægt er að skoða sigurappið og ná í það hér .

Í keppninni var leitað eftir nýjum hugmyndum að notkun Íslendingabókar á snjallsímum og skráðu tólf lið háskólanema sig til leiks. Sex þeirra skiluðu tillögum að appi fyrir tilskildan tíma, á miðnætti miðvikudaginn 10. apríl, og kynntu þau lausnir sínar í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í dag. Í öðru sæti varð liðið Skyldleikur og í þriðja sæti Hugbúnaðarbúllan. Bæði lið fengu snjallsíma frá Vodafone og LG í verðlaun.