Stafræna auglýsingastofan The Engine Nordic, dótturfélag Pipar\TBWA, vann í síðustu viku til alþjóðlegra verðlauna á European Search Awards í flokknum “Best Use of Search - Travel & Leisure” fyrir Reykjavik Excursions by Icelandia.

Verðlaunin eru ein stærstu stafrænu markaðsverðlaunin sem veitt eru í Evrópu en hundruð auglýsingastofa frá yfir 40 löndum taka þátt á hverju ári. Met innsendinga var í ár sem hljóp á þúsundum.

,,Samstarfið okkar með The Engine Nordic hefur litast af góðu trausti, öflugu samstarfi og sameiginlegri sýn á að ná sem bestum árangri. Saman höfum við lagt okkur mikið fram í þeirri vegferð og árangurinn hefur verið eftir því, framúrskarandi. Við erum afar þakklát fyrir þennan árangur sem og þessari alþjóðlegu viðurkenningu sem verðlaunin eru,” segir Inga Dís Richter framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Icelandia.

Hreggviður Magnússon, framkvæmdastjóri The Engine Nordic, segir það einstakan heiður að fá þessi verðlaun og endurspegli viðurkenningin það trausta og góða samstarf sem fyrirtækið hefur átt með Reykjavík Excursions by Icelandia síðastliðið ár.