Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst eftir þrjár vikur og stendur frá föstudeginum 23. til sunnudagsins 25. október. Töluverð spenna hefur myndast um varaformannskjörið en Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur gefið það út að hún muni ekki gefa kost á sér áfram. Töluverðar líkur er taldar á því að Ólöf Nordal innanríkisráðherra muni gefa kost á sér og nú hefur annað nafn verið nefnt til sögunnar.

Á mbl.is er greint frá því að Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sé að íhuga framboð. Sjálfstæðisfélagið Kári í Rangárþingi skoraði í gær á Unni Brá að gefa kost á sér en hún er einmitt þingmaður í Suðurkjördæmi. Unnur Brá segist hrærð yfir þessari áskorun og ennfremur sé ljóst að hún þurfi að íhuga málið.