Á fundi Kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var ákveðið að gera breytingar á lista flokksins. Efstu þrjú sætin haldast þó óbreytt, en í fyrsta sæti situr Páll Magnússon sem fastast, Ásmundur Friðriksson heldur öðru sætinu og Vilhjálmur Árnason því þriðja. Þetta kemur fram á vef mbl.is.

Hins vegar þá færist alþingiskonan Unnur Brá Konráðsdóttir úr því fimmta og upp í fjórða sæti listans. Einnig er þeim Kristínu Traustadóttur og Hólmfríði Kjartansdóttur bætt við listann í fimmta og sjötta sæti.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lenti í fjórða sæti prófkjörsins, en ákvað að yfirgefa vettvang stjórnmálanna vegna útkomu úrslitana. Mikil umræða spratt upp um kynjahlutföll listans og voru þessar breytingar gerðar í kjölfar þeirrar gagnrýni.

Hér má sjá efstu sex sæti listans:

  • 1. sæti - Páll Magnússon, fjölmiðlamaður.
  • 2. sæti - Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.
  • 3. sæti - Vilhjálmur Árnason, alþingismaður.
  • 4. sæti - Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður.
  • 5. sæti - Kristín Traustadóttir, endurskoðandi.
  • 6. sæti - Hólmfríður Erna Kjartansdóttir, skrifstofustörf.