„Þetta var ógeðslega gaman,“ segir Unnur Eggertsdóttir, dóttir Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1.

Feðginin tróðu upp í Eldhúspartíi FM 957 í gærkvöldi við mikinn fögnuð viðstaddra: „Við tókum bara lögin sem ég hef gefið út í gegnum tíðina og settum í glænýjan búning og fólk tók bara vel í þetta.“

Unnur segir að þau feðginin hafi í gegnum tíðina sungið saman á skemmtunum og líka bara heima í stofu, en verkaskiptingin er þó skýr: „Hann fær ekki að koma nálægt míkrafón en hann fær að spila á gítar. Hann hefur spilað undir hjá mér síðan ég var lítið dýr og oft þegar við höfum verið einhvers staðar og það hefur vantað söngatriði þá er okkur bara skellt upp á svið. Ég held að fyndnasta gigg hjá okkur hafi verið þegar við bjuggum í Bandaríkjunum. Þá var svona alþjóðlegur dagur í skólanum mínum og allar þjóðir áttu að troða upp. Ég var átta ára og fór í íslenskan þjóðbúning og við sungum „Icelandic Cowboy“. Þá vorum við þjóðinni svo sannarlega til sóma.“

Unnur segir að þeim hafi þótt einstaklega gaman að syngja lagið „Við stingum af“, sem hún gaf út í sumar, fyrir gesti Eldhúspartísins. Og þau eru sammála þegar kemur að uppáhaldshljómsveitinni: „Við erum miklir Queen aðdáendur, það er okkar hljómsveit.“

Eggert segist hafa verið í góðu stuði fyrir Eldhúspartíið: „Þetta var hörkustuð. Ég var ekkert svo stressaður enda veit ég hvað söngkonan er sjóuð svo ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur." Aðspurður hvort þau feðginin hyggist fara með atriðið eitthvað lengra segir hann hlæjandi: „Við Unnur spiluðum á Sjóaranum síkáta í Grindavík í sumar og væri þá ekki bara gaman að taka allar aðrar höfuðstöðvar sjávarútvegsins næsta sumar?"