Unnur Helga Kristjánsdóttir hefur hafið störf sem ráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu á sviði samþættingar og einföldunar stjórnunarkerfa, verkefna tengdum umbreytingum á verklagi og skipulagi ásamt því að verkefnastýra fjölbreyttum verkefnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strategíu.

Unnur Helga hefur lengst af starfað sem stjórnandi, nú síðustu 9 ár innan orkugeirans og kemur til Strategíu frá Landsvirkjun þar sem hún gegndi stöðu forstöðumanns stjórnunarkerfa og umbóta.

Unnur Helga býr yfir 20 ára leiðtogareynslu á sviði stjórnunarkerfa, uppbyggingu, innleiðingu, þróun og samþættingu þeirra og hefur unnið að eflingu stjórnunarhátta og gæðastjórnunar innan fyrirtækja og leitt fjölbreytt umbótaverkefni því tengd.

Unnur hefur einnig yfirgripsmikla reynslu af verkefnastjórnun, uppbyggingu og innleiðingu aðferðafræði hennar og skipulags ásamt reynslu við stýringu verkefnastofna og verkefna.

Strategía er sérhæft ráðgjafafyrirtæki sem veitir fjárfestum, stjórnum og stjórnendum ráðgjöf - með áherslu á stefnumótun, skipulag, stjórnarhætti og fjölbreytta stjórnunar- og rekstrarráðgjöf. Ráðgjafar Strategíu búa yfir áratuga reynslu af fjármálamörkuðum, stjórnarsetu og stjórnun innan fyrirtækja og stofnana. Eigendur Strategíu eru Guðrún Ragnarsdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir og Margrét Sanders.