Unnur Valborg Hilmarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Unnur Valborg hefur áralanga reynslu af rekstri og stjórnun en síðastliðið ár hefur hún starfað við stjórnendaþjálfun og námskeiðahald, rekstur íbúðagistingar á Hvammstanga, verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar, heilsuræktar.

Unnur var oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra á árunum 2014-2018 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélagið á þeim tíma. Hún er einnig formaður Ferðamálaráðs, formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands og á sæti í skólanefnd Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

Unnur er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og Diploma í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í Stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum og Coach U.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra eru hagsmuna-, þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra. Starfssvæðið afmarkast af sveitarfélagamörkum allra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, allt frá Almenningsnöf í austri að Stikuhálsi milli Bitru og Hrútafjarðar í vestri. Öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra eru aðilar að SSNV en þau eru eftirfarandi:

Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduós, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.

Heildar íbúafjöldi á starfssvæði samtakanna þann 1. janúar 2018 var 7195. Aðalskrifstofa samtakanna er á Hvammstanga en starfsstöðvar eru á Skagaströnd og Sauðárkróki auk reglulegrar viðveru á Blönduósi. Starfsmenn samtakanna eru sex talsins.