Hafnarstjórinn í Ísafjarðarbæ, Guðmundur M. Kristjánsson, eða einhver samstarfsmaður hans tók ekki alls kostar vel í umfjöllun RÚV á miðvikudaginn um verð á strandflutningum og er umkvörtunum BM Vallár svarað fullum hálsi á Facebook síðu Hafna Ísafjarðarbæjar.

Í frétt RÚV er haft eftir Gunnari Þór Ólafssyni, forstöðumanni sölu- og markaðssviðs BM Vallár, að gjaldskrá hafna valdi því að þung vara á borð við gangstéttahellur sé flutt landleiðina út á land í stað þess að vera flutt sjóleiðina. BM Vallá nýi strandflutninga ekki nema að litlu leyti. „Það er í raun verið að reka okkur á vegina. Við getum ekki gefið viðskiptavini okkar úti á landi hagstæðara verð í vöruna út af því hún fer sjðleiðina. Það er sama verð hvort sem hún er flutt á sjó eða landi,“ segir Gunnar Þór í frétt RÚV.

Færslan á Facebook síðu Hafna Ísafjarðarbæjar hefst svo: „Strákarnir hjá BM Vallá og strákarnir á fréttastofu RÚV voru nú eitthvað að skæla yfir okkur strákunum hjá höfnunum á landsbyggðinni vegna þess hve há Vörugjöldin eru hjá okkur. Það fylgdi reyndar fréttinni að strákarnir á Reykjavíkurhöfn hafi verið góðu strákarnir og gefið þeim afslátt en við strákarnir á landsbyggðinni værum vondu strákarnir sem vildum bara allt eða ekkert. En mikið asskoti eru þeir strákarnir á fréttastofu RÚV eitthvað ekki með hugann við efnið og fara bara í vælubílinn með strákunum í BM Vallá án þess að skoða málið. Það hefðu nú verið hæg heimatökinn að kanna málið hjá okkur strákunum útá landi til að sannreyna fréttina.“

Segir í færslunni að allur strandfluttningur sé á 50% afslætti allsstaðar. Gangstéttarhellur fari í vöruflokk 3 og með afslætti kr. 276 fyrir hver tonn. Einn 40 feta gámur taki 25 tonn af hellum og það kosti um 200.000 krónur að flytja hann með vöruflutningabíl milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.

„Með skipi samkvæmt okkar heimildum þá kostar 60 þúsund krónur milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og ofan á þann kostnað kemur 6.898 krónur vörugjald þannig að gámur með skipi er 133.102 krónum ódýrari milli þessara tveggja staða. Ef strákarnir hjá BM Vallá vilja frekar flytja með bílum fyrir hærra verð er það náttúrulega þeirra mál. En plís ekki væla útí loftið og ljúga að fólki kynnið ykkur málið fyrst. Mínusinn fá strákarnir á fréttastofu RÚV fyrir að kynna sér ekki málið. En notum sumarið til að vera í góðu stuði og leggjum hellur á allar götur og garða og verum í bana stuði því nú er Sumarið komið loksins!

Upp með brosið boys“.

Reynt var að hafa samband við Guðmund vegna fréttarinnar en ekki náðist í hann.