Bjartsýni meðal þátttakenda í íslensku atvinnulífi er mikil þessa dagana ef marka má niðurstöður tveggja kannana sem gerðar hafa verið á síðustu dögum. Samtök iðnaðarins gerðu könnun meðal félagsmanna SI þar sem félagsmenn eru inntir eftir því hvernig þeir meta aðstæður fyrir atvinnurekstur á Íslandi og horfur fyrir næstu misseri. Könnun SI verður kynnt félagsmönnum á aðalfundi samtakanna í dag.

Þar kemur fram að 60% meta aðstæður góðar eða mjög góðar fyrir atvinnurekstur á Íslandi og einungis 0,3% meta aðstæðurnar mjög slæmar. Mjög hefur fjölgað í hópi þeirra sem telja aðstæðurnar góðar því á sama tíma í fyrra voru 32% sem mátu það svo að aðstæður væru góðar og 5% sögðu aðstæðurnar mjög slæmar.

Þegar horft er til næstu 6-12 mánaða fram í tímann segja 45% aðstæður í efnahagslífinu fyrir atvinnurekstur betri og einungis 11% meta aðstæður verri. Þegar horft er til mismunandi sviða iðnaðarins kemur í ljós að hæsta hlutfallið er í hópi fyrirtækja í mannvirkja- og byggingariðnaði en 68% þeirra meta aðstæðurnar góðar núna, 66% í hugverkaiðnaði meta aðstæðurnar góðar og 50% fyrirtækja í framleiðslu- og matvælaiðnaði.

Svörin eru einnig greind eftir veltu fyrirtækjanna og er áhugavert að sjá að bjartsýnin er mest hjá millistórum fyrirtækjum, en minnst hjá þeim allra minnstu og þeim allra stærstu. Í öllum tilvikum er þó ríflega helmingur sem telur aðstæður góðar eða mjög góðar. Hlutfallið er 51% hjá minnstu fyrirtækjunum og 55,17% hjá þeim stærstu. Bjartsýnin er hins vegar mest meðal þeirra fyrirtækja sem velta á bilinu 200-499 milljónum króna, en þar telja 74,06% aðstæður fyrir atvinnurekstur vera góðar eða mjög góðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.