Te & Kaffi opnaði í dag nýtt kaffihús að Aðalstræti 9 við Fógetagarð. Þetta er níunda kaffihús fyrirtækisins en það fyrsta var stofnað árið 1984 í kjallara að Barónsstíg 18.

Kaffihúsið hefur talsverða sérstöðu og er óvenju háþróað því þar verður uppáhellibar þar sem viðskiptavinir geta valið kaffi sem er sér uppáhellt fyrir hvern og einn.

„Við munum rista þar hágæða kaffitegundir í litlum 5 kg ofni og pakka þar einnig kaffinu fyrir hin kaffihúsin okkar og sérverslanir,“ segir Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Te & Kaffi.

„Einnig verðum við með nýja kaffivél sem er sams konar og notuð er á heimsmeistaramóti kaffibarþjóna. Þessi kaffivél er talin vera ein sú allra besta í heiminum í dag. Þá ætlum við líka að nota gamla espresso vél sem notast við yfir 100 ára gamla aðferð við að laga espresso. Þetta er sama aðferð og Ítalirnir notuðu þegar þeir fundu upp hinn himneska espresso drykk“

Halldór segir að bryddað verði upp á fleiri nýjungum á kaffihúsinu.

„Við verðum með sérstakan skóla þar sem við munum þjálfa starfsfólk okkar í lögun á kaffidrykkjum, þekkingu á hráefninu, smökkun og þjónustu. Einnig ætlum við að bjóða upp á námskeið fyrir almenning og við vonumst til að þau geti orðið vinsæl fyrir einstaklinga og hópa sem vilja læra meira um kaffi og kaffigerð,“ segir Halldór ennfremur.