*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 12. ágúst 2016 16:27

Uppboð étur upp ávinning neytenda

Félag atvinnurekenda segir uppboð á úthlutun tollkvóta fyrir innfluttning á búvörum éta upp ávinning neytenda.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir núverandi uppboðsfyrirkomulag á úthlutun tollkvóta fyrir búvörur ganga gegn hagsmunum neytenda.

Segir hann það brjóta gegn jafnræði innflytjenda og auka mjög óvissu og ógegnsæi á markaði. 

Étur upp ávinning neytenda

Í umsögn Félags atvinnurekenda um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins sem bíður staðfestingar þingsins er bent á að uppboð á tollkvótum éti upp ávinning neytenda. 

Gjaldið sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir kvótana, muni þannig éta upp ávinning neytenda af tollfrelsinu að verulegu eða jafnvel öllu leyti sem og að minni samkeppni verði við innlendan landbúnað en að var stefnt.

Stenst ekki samninga við ESB

Jafnframt telur FA að hæpið sé að útboðsfyrirkomulagið standist ákvæði í samningi Íslands og ESB um að samningsaðilar skuli „tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“

Þetta sé meðal niðurstaðna skýrslu sem hagfræðingarnir Þórólfur Matthíasson prófessor og Örn Ágústsson unnu fyrir Félag atvinnurekenda og var kynnt alþingismönnum á fundi utanríkismálanefndar Alþingis fyrr í dag.

Langalgengast að sé úthlutað án endurgjalds

Í skýrslunni kemur fram að langalgengast sé að aðildarríki WTO úthluti tollkvóta án endurgjalds, en Ísland og Noregur séu helstu undantekningarnar frá því. Telja þeir jafnframt hæpið að framkvæmd útboðanna standist jafnræðisreglu því að ólíkir innflytjendur sömu vöru standi frammi fyrir ólíku kvótaverði.

Aðferðin auki jafnframt á óvissu og ógegnsæi á markaðnum og geti dregið úr líkum á að mögulegir innflytjendur búvöru leggi fram tilboð í tollkvóta.

Hagsmunir innflytjenda, neytenda og ríkisins séu gagnkvæmir

Segir Ólafur aðrar aðferðir til að úthluta tollkvótanum vera meira í anda Marrakesh-samkomulagsins sem Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO starfi samkvæmt. 

„Það eru gagnkvæmir hagsmunir innflytjenda búvöru, neytenda og ríkisins að fundið verði fyrirkomulag sem tryggir sanngjarna og hagkvæma úthlutun tollkvótanna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA í yfirlýsingu um málið.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is