Uppboðshúsið Christie´s í New York býður nú upp sjaldgæfa loftsteina . Uppboðið fer aðeins fram á netinu, í gegnum heimasíðu Christie´s, og því lýkur á morgun.

Sjaldgæfir loftsteinar af ýmsu tagi eru á uppboðinu, meðal annars frá Mars og tunglinu. Samkvæmt Stjörnufræðivefnum koma tiltölulega fáir loftsteinar til jarðar frá bæði Mars og tunglinu. Einnig eru loftsteinar úr smástirnum til sölu.

Dýrasti loftsteinninn sem er til sölu er kallaður NWA 5000 og er ellefu kílóa steinn úr tunglinu. Hann fannst í Marokkó árið 2007 og lægsta boð í hann eru 110 þúsund bandaríkjadalir, sem eru 13,6 milljónir króna. Ekki hefur verið boðið í steininn.

Ódýrasti steinninn sem stendur er brot úr Allende, sem er einhver mest rannsakaði loftsteinn allra tíma, samkvæmt uppboðssíðunni. Boð í þann stein stendur í 800 bandaríkjadölum.