Nái þeir flokkar sem nú standa að formlegum stjórnarmyndunarviðræðum saman um ríkisstjórn verða ekki gerðar grundvallarbreytingar á kvótakerfinu í sjávarútvegi.

Þetta hefur Fréttatíminn eftir heimildarmönnum en fyrir kosningar töluðu bæði Viðreisn og Björt framtíð, sem eiga nú í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn, um róttækar breytingar á kvótakerfinu.

Veiðigjöld lækki vegna sterkrar krónu

„Svo virðist sem uppboðsleið sé alveg slegin út af borðinu en til umræðu er að breyta því hvernig veiðigjöldin eru innheimt. Jafnvel komi til greina að taka upp kerfi sem leiði til þess að veiðigjöldin lækki þegar krónan er sterk til að koma til móts við sjávarútvegsfyrirtækin þegar illa árar fyrir þau,“ segir í fréttinni.

„Ljóst er hins vegar að Viðreisn og Björt framtíð hafa horfið frá þeirri uppstokkun á kvótakerfinu sem flokkarnir boðuðu fyrir kosningar, þeir hafa horfið frá innleiðingu uppboðskerfis og þeir virðast hafa sæst á útfærslu á innheimtu veiðigjalda sem felur ekki endilega í sér hærri gjaldtöku fyrir afnot af aflaheimildum í sjávarútvegi.“