Innanríkisráðuneytið hefur sett af stað hóp sem mun á næstunni halda utan um þau verkefni sem gætu hentað sem fjárfestingarverkefni einkaaðila í samstarfi við ríkið (Public-private partnership). Hanna Birna Kristjánsdóttir Innanríkisráðherra hefur verið í sambandi við regnhlífarsamtök þar sem hún hefur skynjað áhuga fjárfesta. Þá er átt við verkefni í tengslum við samgönguframkvæmdir hér á landi eins og vegaframkvæmdir, hafnir, ferjur og flugvelli svo dæmi séu tekin. Verið er að teikna upp hugsanlega viðskiptaáætlun fyrir slík verkefni í ráðuneytinu.

„Við erum fyrst og fremst að segja að við viljum fara aðrar leiðir og lítum þá til nágrannaþjóða. Flestallar þjóðir eru í samstarfi við einkaaðila til að halda uppi hraða á framkvæmdum og þá sérstaklega í samgönguframkvæmdum. Við höfum leitað til Hollands og Noregs sem eru þær þjóðir sem eru orðnar hvað færastar í þessu en þær þjóðir eru með gjörólík módel. Við höfum skoðað hvernig þar er haldið utan um verkefnin. Vegagerðin hefur svo unnið lista af samgönguverkefnum sem gætu verið samstarf ríkis og einkaaðila.“

Sundabraut fyrsta verkefnið
Hanna Birna segir Sundabraut vera verkefni sem sé þegar langt komið og þörf sé fyrir. Vinna við umhverfismat og skipulag sé langt komin. Samhljóða bókun borgarstjórnar um að fara í viðræður við ríkið um aðrar leiðir hafi síðan verið ákveðinn hvati. „Sundabraut er verkefni þar sem það væri valkostur um aðra leið. Það væri þá einkaframkvæmd fjármögnuð með vegatollum en eins verði hægt að fara aðra leið líkt og með Hvalfjarðargöngin.