Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt tillaga iðnaðarráðherra um að skipaður verði samráðshópur ráðherra og ráðuneyta til að fara yfir álitamál vegna áforma um erlenda fjárfestingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Hópurinn mun m.a. kanna sérstaklega mögulegar skuldbindingar ríkisins og sveitarfélaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu. Samráðshópurinn verður skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

„Í júní sl. veitti efnahags- og viðskiptaráðuneytið heimild til að stofna félagið Zhongkun Grímsstaðir ehf. Félagið er í eigu Bejing Zhongkun Investment Group Co. Ltd en stjórnarmaður og aðaleigandi þess félags er Huang Nubo. Ítarleg skoðun innan ráðuneytisins leiddi í ljós að engin fordæmi og engin málefnaleg sjónarmið sem hægt er að styðja lögskýringargögnum eru fyrir því að hafna sambærilegum beiðnum. Var það rækilega útskýrt í minnisblaði sem kynnt var í ríkisstjórn þann 12. júní síðastliðinn,“ segir í tilkynningunni.

Félagið Zhongkun Grímsstaðir hefur lýst yfir áhuga á uppbyggingu ferðamennsku á Grímsstöðum á Fjöllum. Gert er ráð fyrir að kostnaður við uppbyggingu á Grímsstöðum verði um 16,2 milljarðar króna á næstu fimm árum.

Tilkynning iðnaðarráðuneytinu .