Óskar Finnsson rekstrarstjóri Íslandshótela er stoltur af þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað hjá keðjunni á undanförnum árum og er fjöldi hótela keðjunnar nú orðin 18 og stefnir í að þau verði orðin 21 innan tveggja ára.

Við skiptum bara í heimamenn

Óskar leggur mikla áherslu á að keðjan reynir að vinna allt með íbúum á staðnum.

„Við kaupum og eigum eins mikil viðskipti í heimabyggð og við mögulega getum. Alveg sama hvort það eru einhverjar skemmtanir, eða okkur vantar pípara á stundinni. Við viljum hafa heimamenn alls staðar. Við viljum geta hringt í þá sem búa og starfa á staðnum, ef það var til dæmis eitthvað að koma uppá, slys eða annað slíkt. Kannski þarf að skipta um rúðu, sem dæmi, svo við skiptum bara í heimabyggð, þá gengur það hratt og vel fyrir sig og allir hafa hag af því," segir Óskar við Viðskiptablaðið.

Sláturhúsi breytt í hótel

Eitt hótelanna sem þeir hafa byggt upp á undanförnum árum var til að mynda gert í samstarfi við heimamenn en það er staðsett í gamla sláturhúsinu á Patreksfirði.

„Þetta hús var í algerri niðurníslu alveg niður við sjó, en með alveg geggjað útsýni yfir allan fjörðinn. Þeir sem eiga frystihúsið á Patreksfirði áttu húsið og komu þeir að máli við eigendendurnar hérna og sögðu, „heyrðu ef við tökum húsnæðið hérna í gegn með ykkur, við eigum pínu í þess og þið eigið meirihlutann, eigum við að búa til Hótel þarna?“ Það gekk, og samvinnan gengur mjög vel, þetta er bara mjög góður rekstur,“ segir Óskar.

„Það þarf reyndar að loka honum enn sem stendur yfir desember og janúar því á þeim tíma kemur ekki sála þarna. En að vakna þarna, opna gluggatjöldin og horfa út yfir fjörðinn, þú stendur bara á öndinni og hugsar með þér hvar er ég eiginlega? Þetta er gott þriggja stjörnu hótel.“