Reitir og Reykjavíkurborg hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu Kringlusvæðsins en þar kemur fram að áætlað sé að uppbygging hefjist árið 2019 að því er kemur fram í tilkynningu. Möguleg uppbygging á reitnum er um 140-170 þúsund fermetrar en myndaður verður starfshópur með fulltrúum Reita, skipulagsfulltrúa og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að vinna að verkefninu og verkstýra vinnu við gerð ramma- og deiliskipulagsáætlana.

Gert er ráð fyrir að drög að rammaskipulagi liggi fyrir um mitt ár 2018 og að fyrsti deiliskipulagsáfangi verði auglýstur til kynningar fyrir árslok 2018. Þá segir einnig að hugmyndir Reita gangi út á að byggja upp nútímalegan og öflugan borgarkjarna en gert er ráð fyrir að Borgarlínustöðvar verði staðsettar við Kringlumýrarbraut og Miklubraut og þjóni svæðinu og nærliggjandi vinnustöðum og menntastofnunum.