Stefnt er að því að fyrir haustþingið verði kynntur til sögunnar sérfræðingahópur sem ætlað er að uppfæra heildaráætlun um afnám gjaldeyrishafta og hafa umsjón með samskiptum við kröfuhafa föllnu bankanna af því er fram kemur í Morgunblaðinu. Samkvæmt heimildum þeirra hafa erlendir aðilar sett sig í samband við ríkisstjórnina og boðið fram aðstoð vegna þessa.

Að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, hefur ekki verið ákveðið hversu margir skipi þennan hóp. Þá á eftir að ákveða hvort þar verði að finna blöndu innlendra og erlendra sérfræðinga eða eingöngu innlenda sérfræðinga. Engar tímasetningar hafa verið ákveðnar um afnám hafta.