Matsfyrirtækið Reitun gefur Arion banka lánshæfiseinkunnina B+ með jákvæðum horfum. Matið hefur jafnframt breyst úr stöðugum horfum í jákvæðar. Í greiningu fyrirtækisins segir m.a. að bankinn horfi í vaxandi mæli til framtíðar, fjárhagslegur styrkleiki sé mikill og kjarnastarfsemi og samkeppnisstaðan sterk. Þá segir Reitun gæði lánasafns Arion banka fara batnandi og lok fjárhagslegar endurskipulagningar nokkurra stórra aðila sem unnið hafi verið að muni styrkja kennitölur bankans. Gangi það eftir í samræmi við áætlun muni einkunn bankans hækka.

Matið var gert í tengslum við útboð Arion banka á sértryggðum skuldabréfum í síðustu viku. Bréfin eru með veð í tryggingasafni sem samanstendur að af safni íbúðalána sem gefin voru út eftir maí 2011 og eru með að hámarki 80% veðhlutfall.

Þá segir Reitun sérstakar aðstæður hér á landi, s.s. gjaldeyrishöft, uppgjör við kröfuhafa og pólitísk óvissa, hafa verulega neikvæð áhrif á alþjóðlegt lánshæfismat Íslands og þar með bankans og muni það torvelda erlenda lánsfjármögnun bankans. Bankinn er hins vegar vel fjármagnaður í erlendri mynt og þarf ekki á endurfjármögnun að halda á næstunni.