Hagnaður Exista [ EXISTA ] eftir á 3. ársfjórðungi kom greiningaraðilum á óvart en hann var 7,4 milljónir evra sem er mun betri afkoma en vænst var. Greiningardeild Landsbankans spáði tapi upp á um 120 milljónir evra. Mestu munar um uppfærslu á óskráðum eignum upp á 65 milljónir evra sem ekki hafði verið gert ráð fyrir.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að ekki kemur fram hvaða eignir það eru sem hafa verið uppfærðar en í reikningum Exista má sjá að stærsta óskráða eignin, eignarhluturinn í Skiptum, móðurfélagi Símans, var ekki uppfærð. Uppfærslan er bókhaldslega aðgerð sem hefur ekki áhrif á sjóðstreymi félagsins og ætti ekki að hafa veruleg áhrif á verðmat á félaginu.

Hlutdeildarhagnaður Exista er um 11 milljónir evra umfram spá greiningardeildar Landsbankans en nánast allur hlutdeildarhagnaður Exista er vegna Kaupþings og finnska tryggingafélagsins Sampo. Spá Greiningardeildar byggði annars vegar á afkomuspá þeirra fyrir Kaupþing og hins vegar meðaltalsspá markaðsaðila fyrir Sampo.

"Við gerðum ráð fyrir tapi af bæði veltubók hlutabréfa sem og á gjaldeyrisstöðu félagsins en krónan veiktist talsvert á tímabilinu ásamt því sem hlutabréfamarkaðir voru erfiðir. Ljóst er að afkoma Exista af þessum tveimur þáttur var mun betri en við gerðum ráð fyrir," segir Greiningardeild.