Greiningardeild Kaupþings banka hefur uppfært verðmat sitt á Alfesca og Vinnslustöðinni og hefur endurskoðað afkomuspár fyrsta ársfjórðungs fyrir félögin.

Það er mælt er með kaupum á Alfesca en mælt með sölu á Vinnslustöðinni.

?Hráefnisverð á laxi frá Noregi náði nýjum hæðum á fyrsta fjórðungi ársins en slíkt kemur sér afar illa fyrir félag eins og Alfesca. Við höfum endurskoðað afkomuspá okkar frá síðasta verðmati okkar á félaginu í ljósi þessa," segir greiningardeildin.

Breytingarnar á hráefnisverði hafa áhrif til lækkunar á verðmati á félaginu, aftur á móti þar sem gengi krónunnar gagnvart evru hefur lækkað verulega á sama tíma er endanleg niðurstaða verðmatsins nú hærri en áður.

Greiningardeildin metur nú Alfesca á verðmatsgengið 4,9 krónur á hlut, samanborið við gengið 4,03 á bréfum félagsins við lokun markaðar í dag.

Hækkun frá síðasta verðmati nemur 0,3 krónur á hlut.

Vinnslustöðin

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi Vinnslustöðvarinnar frá síðasta verðmati greiningardeildar Kaupþings banka.

?Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað mikið, sem er jákvætt fyrir rekstur félagsins en hefur neikvæð áhrif á fjármagnsliði vegna gengistaps á erlendum skuldum," segir greiningardeildin sem hefur uppfært verðmat sitt á Vinnustöðinni.

Þrátt fyrir bætta framlegð frá fyrri spá gefur sjóðsstreymisgreining á félaginu óbreytt verðmatsgengi, 3 krónur á hlut, og mælir greiningardeildin áfram með sölu á bréfum félagsins.

Ástæða óbreytts verðmats er hækkun á ávöxtunarkröfu vegna hækkandi vaxta.