Uppgangur er í afleiðuviðskiptum hér á landi, ef marka má tölur Seðlabanka Íslands og upplýsingar frá markaðsaðilum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um málið. Samkvæmt tölum Seðlabankans uxu eignir íslenskra verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða í afleiðusamningum um 12% í júlímánuði, og samtals um 67% á fyrstu sjö mánuðum ársins. Sjóðirnir áttu 3,6 milljarða í afleiðum í lok júlí.

Þeir starfsmenn rekstrarfélaga sem Viðskiptablaðið hefur rætt við eru sammála um að samhliða almennum uppgangi á verðbréfamarkaði hafi verið uppgangur í gerð afleiðusamninga. Einn viðmælandi blaðsins, sem stýrir fagfjárfestasjóði, sagðist raunar sýnast sem svo að tölur Seðlabankans væru verulega vanmetnar. Eignir fagfjárfestasjóða í afleiðusamningum væru líklega margfalt meiri en tölur bankans gæfu í skyn.

Framvirkir samningar með hlutabréf eru vinsælustu afleiðusamningarnir á íslenska markaðnum um þessar mundir. Tækifærin til að hagnast á slíkum samningum hafa batnað verulega eftir því sem ákveðnari uppsveifla hefur orðið á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Einnig eru gerðir framvirkir samningar með skuldabréf, og einhver hluti eigna íslenskra sjóða í afleiðum eru síðan í formi sölu- og kauprétta og vaxtaskiptasamninga.

Góð ávöxtun trekkir að

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru fagfjárfestasjóðir og spákaupmenn þeir sem helst taka stöður í afleiðuviðskiptum hér á landi. Viðmælandi blaðsins, sem ekki vill koma fram undir nafni, orðaði það sem svo að spákaupmennka hafi aldrei horfið á Íslandi þó tækifærin til að eiga í slíkum viðskiptum hafi ef til vill ekki verið mikil upp á síðkastið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .