Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, fannst gaman að fylgjast með árangri tækni- og hugvitsfyrirtækja í ýmsum geirum á árinu.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Bara nokkuð skemmtilegt. Það hefur gengið ágætlega hjá okkur í Nýherja, töluverður viðsnúningur frá árinu á undan, frábær gangur hjá dótturfélögum og gaman að fylgjast með spennandi nýjungum sem koma eins og á hröðu færibandi í upplýsingatæknigeiranum. Almennt er svo meiri jákvæðni í atvinnulífinu finnst mér, sem veit á gott ef hún smitast inn í fjárfestingar, sem þarf að gerast. Samt er eins og það hafi verið einhvers konar hik yfir íslensku efnahagslífi – eins og við séum alltaf að bíða eftir einhverju áður en við förum almennilega af stað, hvort sem það eru skuldaleiðréttingar, afnám gjaldeyrishafta eða kannski bara gagnlitlir hreppaflutningar næstu opinberu stofnunarinnar.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Það liggur auðvitað beint við að nefna ferðaþjónustuna, sem vex ef eitthvað er aðeins of mikið til að vel sé við ráðið. En svo finnst mér sérlega gaman að því að fylgjast með glæsilegum árangri tækni- og hugvitsfyrirtækja í ýmsum geirum, t.d. DataMarket, Plain Vanilla, Alvogen eða TM Software, sem sýna að íslenskt hugvit, er varðar tækni eða viðskiptamódel, er gjaldgengt hvar sem er.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Að 2015 verði hiklaust og standi 2014 framar.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Að kveða niður gjaldeyrishaftavofu bankahrunsins áður en hún gerist íslenskur ríkisborgari. Að styðja við stöðugleika, gæta að launaþróun í opinbera geiranum og almennt opinberum útgjöldum, en passa um leið upp á innviðina, sér í lagi í heilbrigðis- og menntamálum. Og svo kannski það sem getur verið ögrandi, þ.e. að velja réttu verkefnin og leggja afl í þau, en ekki önnur.