Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, segir jafnvægi hafa náðst í ríkisfjármálum á árinu og markvert sé hversu miklum gjaldeyrisforða Seðlabankinn hefur náð að safna.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið 2014 hefur að mörgu leyti verið frekar rólegt og einkennst af stöðugleika. Það má segja að með skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar hafi náðst ákveðið uppgjör við fortíðina, en ekki hefur náðst að taka veruleg skref til afnáms fjármagnshafta þó svo að aðstæður hafi að mörgu leyti gefið tilefni til. Það var lengi vel ládeyða yfir verðbréfamörkuðum á árinu, en það má lesa úr hinum ýmsu hagtölum að efnahagskerfið er að rétta úr kútnum.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Það hefur náðst jafnvægi í ríkisfjármálum og markvert hversu miklum gjaldeyrisforða Seðlabankinn hefur náð að safna á árinu. Skuldastaða þjóðarbúsins hefur batnað verulega á árinu og viðskiptaafgangur enn og aftur farið fram úr björtustu vonum. Þetta gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Það væri vonandi að stór skref náist í afnámi fjármagnshafta enda að mörgu leyti kjöraðstæður til þess. Það einsýnt að það verða átök á vinnumarkaði og mikilvægt að það náist sátt án þess að núverandi stöðugleika sé fórnað.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar eru að byggja tiltrú á afnámi hafta og halda núverandi stöðugleika á vinnumörkuðum án þess að tefla ríkisfjármálum í hættu. Þá tel ég mjög mikilvægt að menn átti sig á þeim tækifærum sem felast í lagningu sæstrengs til Evrópu og að umræðan um þetta verkefni hljóti þann hljómgrunn sem hún á skilið, enda mögulegur ávinningur fyrir þjóðarbúið verulegur.Finnur