Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir fyrirtækið hafa verið í mikilli sókn á árinu og meðal annars skilað sínum besta ársfjórðungi í sögunni.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið 2014 hefur að mörgu leyti verið ágætt ár fyrir Ísland í efnahags- og viðskiptalegu tilliti. Síðustu ár hefur það verið þannig að maður tekur kannski ekki svo mikið eftir batanum á milli vikna eða mánaða en þegar litið er til baka yfir heilt árið sést að þróunin er klárlega í rétta átt. Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að mikilvæg verkefni eru enn óleyst með tilliti til gjaldmiðilsins okkar.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Ef ég lít á það sem stendur mér næst einkenndist fyrri hluti ársins hjá Vodafone að miklu leyti af viðamikilli styrkingu innviða sem skilaði sér meðal annars í ISO 27001 netöryggisvottun um mitt ár sem var mikilvægur áfangi. Seinni hluta árs hefur félagið síðan verið í sókn sem meðal annars skilaði sér í besta ársfjórðungi í sögu fyrirtækisins auk þess sem stórir viðskiptavinir á borð við Icelandair og Samherja bættust í hóp viðskiptavina.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Nú er spurning hvort að maður talar um vonir eða væntingar. Ég tel að þróunin á næsta ári ætti að geta haldið áfram með svipuðum hætti og verið hefur, það er að skuldastaða heimila lækki og hagkerfið styrkist. Stóra breytan er hins vegar hvernig gengur að afnema gjaldeyrishöft sem ég vona auðvitað að gangi sem best og skapi okkur í framhaldinu ný tækifæri.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Manni líður eins og rispaðri plötu að tala um afnám gjaldeyrishafta en það er nú einu sinni þannig að það er lang mikilvægasta verkefnið sem staðið er frammi fyrir, eins og reyndar síðustu árin. Í því verkefni væri mikilvægt að komast á rétta braut varðandi peningastefnu og gjaldmiðlamál, því það er til lítils að leysa málið tímabundið til þess að fá svo aðra dýfu eftir nokkur ár. Leyfum okkur við áramót að vera bjartsýn að tímamótaárangur náist í þessum efnum árið 2015.