Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið reyndist HB Granda farsælt. Veiðar og vinnsla gengu vel og afurðaverð var hátt. Teknar voru ýmsar mikilvægar ákvarðanir eins og að leggja í smíði þriggja ísfisktogara en tvö uppsjávarskip voru þegar í smíðum. Ég efast um að íslenskt útgerðarfélag hafi áður ráðist í jafn viðamikið nýsmíðaverkefni.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Árið byrjaði með slakri loðnuvertíð sem þó náðist að gera merkilega vel úr eins og reyndar má segja um árið í heild. Hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Við skráningu seldu stórir hluthafar 27% hlutafjár félagsins. Ég tel að vel hafi tekist til og finnst mjög ánægjulegt hversu mikill áhugi hefur verið á félaginu.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Ég vona að árið verði jafn farsælt því sem nú er að líða. Almennt árar vel til sjávar og vonandi rætist úr loðnuvertíð. Það er tilhlökkun að fá tvö nýsmíðuð skip inn í reksturinn á árinu og forréttindi að fá að taka þátt í slíkum verkefnum. Vonandi helst ró á vinnumarkaði.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Það bíða hennar mörg mikilvæg og snúin verkefni. Það er orðið mjög knýjandi að frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld verði til lykta leidd. Nú stendur yfir sjötta þingárið þar sem stjórnarflokkar hafa sem yfirlýst markmið að staðfesta ný lög um stjórn fiskveiða. Það er vonandi að markmiðið náist loks sjávarútveginum og þjóðinni til heilla. Vonandi ganga eftir væntingar um að stór skref verði stigin við afnám gjaldeyrishafta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .