Hagnaður samheitalyfjafyrirtækisins Actavis nam 8,2 milljónum evra , sem samsvarar 715 milljónum króna, á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 23,2 milljónir evra, sem samsvarar um tveimur milljörðum króna, á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynningu Actavis.

Inn í uppgjörið kemur kostnaður vegna tilrauna Actavis til yfirtöku á króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva, en sá kostnaður nam 20,7 milljónum evra, eða 1,8 milljörðum króna.

Greiningardeild Glitnis spáði því að hagnaður félagsins yrði í námunda við 3,8 milljónir evra (332 milljónir króna), eftir að gjaldfærsla Pliva verkefnisins hafði verið færð inn í reikninginn, en afkomuspá Glitnis hljóðaði upp á 22,6 milljónir evra án gjaldfærslunnar.

Tekjur félagsins tvöfölduðust á þriðja ársfjórðungi og námu 324,8 milljónum evra, samanborið við 160,9 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. En mikill styrkur var í starfsemi fyrirtækisins í Mið- og Austur-Evrópu, segir í tilkynningunni.