Hagnaður af rekstri Alfesca nam 3,5 milljónum evra á síðasta fjórðungi fjárhagsárs félagsins, sem nær frá 1.júlí 2007 til 30.júní 2008. Afkoman er töluvert yfir meðalspá greinenda, en hún hljóðaði upp á 1,2 milljón evra.

Samtals hagnaður á öllu fjárhagsárinu nemur 28,6 milljónum evra sem er um 28% aukning frá fyrra fjárhagsári.

Sala dróst saman um 5,4% á milli fjórða fjórðungs í ár og í fyrra, og nam 132 milljónum evra. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að salan hafi verið stöðug í sambærilegri starfsemi þrátt fyrir að áhrif páskasölunnar hafi komið fram á 3.fjórðungi á þessu fjárhagsári en á 4.ársfjórðungi síðasta árs, og einnig að gengisáhrif punds gagnvart evru nemi 9,1 milljón evra.

Salan á öllu fjárhagsárinu 07-08 nam 647 milljónum evra, sem er 9% aukning frá fyrra ári.

Þá nam EBITDA á fjórða fjórðungi (1.apríl-30.júní 2008) nam 8,5 milljónum evra sem er 43% aukning frá fjórðungnum í fyrra.

Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 47,6% í lok júní.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að stjórnin muni leggja til tillögu um greiðslu arðs að upphæð 12 milljónir evra, á næsta aðalfundi félagsins sem er 20.október.

Fundur vegna uppgjörsins verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu í dag kl 16.

Nánar verður fjallað um uppgjörið í Viðskiptablaðinu á morgun.