Uppgjör Alfesca á fyrsta fjórðungi var yfir væntingum greiningardeildar Glitnis. ?Við gerðum ráð fyrir erfiðum rekstri vegna hás laxaverðs auk þess sem páskar voru í ár á öðrum fjórðungi en stærstur hluti framlegðar Alfesca verður til vegna jóla- og páskasölu," segir greiningardeildin.

Hagnaður Alfesca nam 0,5 milljónum evra (46 milljónir króna) en spáin hljóðaði upp á 2,8 milljóna evra (257 milljónir króna) tapi.

"Þó ber að taka fram að félagið nýtti sér skattalegt tap Delpierre á tímabilinu sem olli því að félagið sýndi hagnað en ekki tap," segir greiningardeildin.

Góður tekjuvöxtur var á fjórðungnum, eða 11,4% frá sama tímabili fyrra árs, að sögn greiningardeildar. EBITDA framlegðin nam 5,3 milljónum evra (487 milljónir króna) en greiningardeildin spáði að hún yrði 3,3 milljónir evra (303 milljónir króna).

?Afkoma breska skelfiskframleiðandans Lyons Seafood gekk mjög vel og þá hafði fuglaflensa ekki neikvæð áhrif á sölu andaafurða eins og hefði mátt búast við," segir greiningardeildin.

Þá jók Blini markaðshlutdeild sína í Frakklandi á tímabilinu. Hátt laxaverð hafði þó neikvæð áhrif eins og á fyrri fjórðungum.